Góður liðsandi

Verkfærakistan
Spekingahornið

Góður liðsandi

Birtist fyrir
14/2/2017
dögum síðan.
Birtist fyrir
14/2/2017
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Karl Ágúst Hannibalsson

Körfuknattleiksþjálfari FSu á Selfossi

kallikrulla@gmail.com

Góður liðsandi

Karl Ágúst er yfirþjálfari í yngri flokka starfi körfuknattleiksfélags FSu. Hann notar árangursríkar aðferðir við þjálfunina og skipulagningu hennar.

Í starfi mínu sem þjálfari yngri flokka hef ég komist að mikilvægi þess að byrja strax á því að huga að andlegu- sem og félagslegu hlið barnanna þegar þau koma inn í íþróttastarfið. Í vetur hef ég einbeitt mér að þeim allra yngstu, 5-8 ára, sem æfa hjá okkur og reyni á markvissan hátt að efla þessa þætti.

Mér finnst mjög mikilvægt að allt liðið sé samstíga þegar skapa á góðan liðsanda. Þetta getur verið erfitt þegar iðkendurnir eru að æfa á mismunandi forsendum. En því er ekki að skipta þegar huga á að vellíðun í íþróttastarfi. Sömu tól eiga þar við óháð aldri. Aðferðirnar sem hægt er að nota eru þó misjafnar. Mín leið til þess að efla þetta hefur verið að gera æfingar og keppni í kringum greinina að sameiginlegu áhugamáli. Ef iðkendurnir hafa gaman að því að stunda íþróttina þá gerir það vinnuna auðveldari.

Í upphafi tímabilsins núna settumst við niður, bæði iðkendur og þjálfari. Við ákváðum í sameiningu markmið fyrir allt liðið. 

Fyrir valinu var að stefna að því að verða flottasta körfuboltaliðið á Íslandi tímabilið 2016-2017. Út frá þessu ræddum við svo um það hvað þyrfti til þess að verða flottasta liðið. Þessi vinna var mjög áhugaverð og skemmtileg og höfðu strákarnir sem ég þjálfa margar góðar hugmyndir. Útfrá hugmyndum þeirra var niðurstaðan sú að búa til fimm gildi sem við stefndum á að fara eftir hvort sem er á æfingum eða í keppni. Við skilgreindum vel merkingu gildanna þannig að allir væru með sitt á hreinu. Strákarnir fengu síðan allir útprentað blað með gildunum til þess að taka með heim. Til þess að minna okkur á gildin okkar á æfingum tek ég eitt af gildunum fyrir í einu og nota sem þema í tvær vikur í senn. Þá skrifa ég gildið sem við vinnum með hverju sinni upp á töflu og hef inni í sal á meðan á æfingu stendur. 

Við höfum sem dæmi haft vináttu sem þema síðustu vikur. Við leggjum mikla áherslu á skilgreiningu iðkenda á vináttu sem var meðal annars að hugsa um samherjana, vera góðir hver við annan og tala við þá sem eru leiðir á æfingunum. Þeir sem sýna öðrum vináttu fá mikið hrós fyrir bæði frá þjálfara og samherjum.

Heimaverkefnin hafa líka reynst vel og vakið mikla lukku. Í þeim flétta ég saman ýmsum þáttum tengdum íþróttinni, gildunum okkar og fleiru þeim tengdum. Með þessu móti hefur mér tekist að fá strákana til þess að meta enn frekar það sem þeir eru að gera og einnig að fá foreldrana til þess að taka virkari þátt í starfinu með þeim. 

Fyrir hverja helgi fá strákarnir helgarverkefni sem þeir þurfa að leysa yfir helgina. Í þessum verkefnum hef ég farið yfir þætti eins og tæknilega hluti tengda körfuboltanum, mataræði, sjálfstraust, gildin okkar og margt fleira. Á hverjum mánudegi förum við síðan yfir það hvernig gekk að klára verkefnin. Strákarnir eru metnaðarfullir og leggja mikið á sig til að klára verkefnin.

Mér hefur alltaf þótt mikilvægt að gera hluti fyrir utan venjulegar æfingar eða brjóta upp starfið á einhvern hátt. Við höfum haft spilakvöld og foreldraæfingar. Með þessu móti eykst samheldni hópsins og iðkendurnir sem og foreldrar fá að kynnast þjálfaranum betur.

Þetta eru aðferðir sem hafa reynst mér vel við að skapa góðan liðsanda. Þær hafa líka, að ég tel, átt þátt í í því að fjölga iðkendum eftir að ég fór að huga betur að þessum þáttum.

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA