Hvernig er hnéð?

Verkfærakistan
Spekingahornið

Birtist fyrir
23/11/2016
dögum síðan.
Birtist fyrir
23/11/2016
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Ragna Ingólfsdóttir

Badmintonkona

Hvernig er hnéð?

Þessari spurningu hef ég þurft að svara alveg síðan ég sleit krossband í hné.

Það gerðist á alþjóðlegu badmintonmóti föstudaginn 13. apríl 2007. Þetta var síðasta mótið áður en Ólympíuárið hófst, þann 1. maí 2007. Þann 1. maí 2008 átti síðan Ólympíulistinn að koma út, en þá vildi ég vera á meðal þeirra 32 kvenna sem komust inn í einliðaleik á leikana í Peking. Til þess að vera öruggur inn á Ólympíuleika þarf leikmaður að keppa á 2-4 alþjóðlegum mótum í mánuði í a.m.k. 3 ár fyrir leika og ná að vera á meðal 50 bestu í heimi.

Ég neitaði að gefast upp

Ég fór til Íslands á sunnudegi og hitti nokkra lækna á mánudegi sem voru skiljanlega ekki mjög bjartsýnir. Það var einn sem sagði mér að einhver hluti þeirra sem fara ekki í aðgerð ná að halda áfram að æfa með slitið krossband. Ég tók því fagnandi. Ég ætlaði mér stóra hluti.

En hvernig fór ég að því að vinna alþjóðleg mót, halda mér á topp 50 í heiminum og keppa á Ólympíuleikum með slitið krossband?

Ég neitaði að gefast upp. Ég hafði sett mér markmið þegar að ég var 13 ára, hafði hagað lífi mínu samkvæmt því í 11 ár, það hlaut að vera einhver tilgangur með þessu.

Ragna setti sér markmið ung að árum

Ég skrifaði niður plan. Hvað þarf ég að gera til þess að ná markmiðum mínum? Ég umkringdi sjálfa mig færu fólki á sínu sviði og hélt áfram veginn. Markmiðaplanið mitt leit nokkurn veginn svona út:

Markmið

1. 

Að lifa eftir mottói: Ég fann mér mottó til að lifa eftir á hverjum einasta degi: Impossible is nothing. Að eitthvað sé ómögulegt, það er ekki staðreynd, það er allt hægt.

2. 

Að byggja mig upp líkamlega: Ég styrkti líkamann, ég byggði upp litlu vöðvana með jafnvægisæfingum frá sjúkraþjálfara, fór á fleiri badminton tækniæfingar, lyfti stóru vöðvana, þ.e. gerði allt sem ég gat gert sem setti ekki álag á ranga staði, hoppaði, hljóp í sundi, hjólaði upp brekkur til að æfa þolið, stundaði jóga, teygjur og slökun. Einnig spilaði ég með bestu hnéhlíf sem völ var á.

3. 

Að byggja mig upp andlega: Ég styrkti andlega þáttinn. Ég ætlaði að vera með miklu meira sjálfstraust en andstæðingurinn. Einbeitingin skyldi vera 100%. Hugsunin skyldi vera skýr. Ég æfði einbeitinguna með hugleiðsluæfingum, æfði öndunina, hvernig hún væri dagsdaglega, hvernig hún væri í leik, undir pressu osfrv. Ég varð betri í streitustjórnun og fékk betra sjálfstraust inn á velli. Ég stundaði ímyndarþjálfun. Ég sá fyrir mér að ég kæmist inn á Ól, að Árni Þór landsliðsþjálfari myndi óska mér til hamingju og gefa mér blóm, sá fyrir mér þegar að ég gekk inn á Ólympíuleikvanginn í Peking, heyrði fögnuðinn, sá líka fyrir mér ákveðin högg, fótaburð, ákveðna leiki og sigra, sá fyrir mér allt sem ég vildi að myndi gerast.

Íþróttasálfræðingurinn minn gaf mér tæki og tól til að vinna með. Á hverjum degi stundaði ég jákvætt sjálfstal, ég sagði aldrei neitt slæmt um mig, var alltaf að byggja mig upp. Ég fann mér þrjú orð til að segja við sjálfa mig í æfingum og keppni: Einbeitt, ákveðin og örugg. Íþróttasálfræðingurinn sagði síðan mjög mikilvægan hlut við mig: „Þú átt eftir að verða jafngóð aftur, þú veist bara ekki hvenær, en það mun gerast“. 

Þessu lifði ég eftir.

ég sá fyrir mér allt sem ég vildi
að myndi gerast

4. 

Að breyta mínu spili: Það var nokkuð líklegt að andstæðingar mínir myndu nýta sér veikleika minn. Ég ætlaði að tækla það, enda breytti ég mínu spili töluvert. Ég spilaði aðeins hægar en áður, en höggin voru betri og leikurinn meðvitaðri og meira úthugsaður.

5. 

Að vinna alþjóðleg mót, halda mér á topp 50 í heiminum og topp 16 í Evrópu: Ég ætlaði að vera sigurvegari og fá fullt af stigum á heimslistann, enda vann ég nokkur alþjóðleg mót á þessu tímabili, var einnig á topp 3 í mörgum mótum, var nr.37 í heiminum og á meðal bestu í Evrópu.

Tveimur mánuðum eftir að ég sleit krossband var ég mætt aftur inn á völlinn í keppni. Ég spilaði á HM landsliða, mestmegnis tvíliða- og tvenndarleik, en ég spilaði einn einliðaleik og vann. Það er hægasti og lélegasti einliðaleikur sem ég spilaði á ferlinum, en hann kom mér aftur á bragðið. Næstu mánuðir voru magnaðir, mér fannst ég ósigrandi og náði 1. - 3. sæti á flestum alþjóðlegum mótum sem ég spilaði á. Þetta voru allt mjög sterk og erfið mót, á þeim tíma sem allir voru að spila og reyna að ná í stig á heimslistann. 1. maí kom síðan Ólympíulistinn út. Ég komst inn. Þvílíkur sigur !

Ragna keppti í Peking 2008

Hvernig var hnéð? Það var nokkuð laust í sér, en þá hjálpaði hlífin. Ég gat ekki hlaupið eða lyft þungu með þeim fæti, en annars var hnéð ágætt. Ég var miklu meðvitaðri um það sem ég var að gera, hvernig ég æfði, hvernig ég hvíldi, hvað ég borðaði, hvernig ég talaði við sjálfa mig. Ég var orðin miklu sterkari líkamlega, var í frábæru formi og miklu sterkari andlega. Þetta var ferli sem gerði mér gott að mörgu leyti. Ég fór síðan í aðgerð í september 2008, mánuði eftir Ólympíuleika.

Það er nóg að þú trúir sjálfur á það sem þú ætlar þér. Með réttu viðhorfi og réttum karakter færðu fólk með þér í lið og þá gerast hlutirnir. Það er (nánast) allt hægt !

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA