Stuðningurinn mikilvægi

Verkfærakistan
Spekingahornið

Birtist fyrir
5/4/2017
dögum síðan.
Birtist fyrir
5/4/2017
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Margrét Jóhannsdóttir

Badmintonkona

Stuðningurinn mikilvægi

Oftar en ekki er hausinn eina hindrunin gegn árangri. Það er nefnilega þannig að hugsanir okkar eru ansi máttugar og geta tekið af okkur stjórnina á örskotsstundu. Sem íþróttamaður er mikilvægt að temja sér jákvætt hugarfar enda er erfitt að ná á að þann stað sem maður ætlar sér með neikvæðnina í huga.

Andlega hliðin hefur verið ein mesta áskorun mín

Ein mesta áskorunin sem ég hef þurft að takast á við síðastliðin ár sem badmintonkona er andlega hliðin. Einn daginn er ég harðákveðin í því að komast á Ólympíuleikana en nokkrum dögum seinna sé ég ekki alveg tilganginn í því að æfa. Allir íþróttamenn upplifa slæma daga þar sem að hausinn á þeim er ekki alveg rétt stilltur og æfingar eða mót ganga illa. Það er fullkomlega eðlilegt enda erum við mannleg og þurfum öll að glíma við mótlæti á lífsleiðinni. Þegar hausinn er farinn að stríða manni er gott að hafa eitthvert bjargráð til þess að grípa í en það sem mest hefur hjálpað mér er að tala um það sem er að angra mig. Ég finn mikinn mun á mér á æfingum þegar hugsanir mínar eru neikvæðar og í óreiðu miðað við þegar ég hef létt á hjarta mínu og rætt við einhvern um það sem er að trufla mig.

Margrét Jóhannsdóttir er Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna.

Ég hef ávallt fengið ótrúlega góðan stuðning frá fjölskyldu, vinum og þjálfurum. Mamma og pabbi hafa alla tíð stutt mig í gegnum súrt og sætt og alltaf lagt áherslu á að ég geti leitað til þeirra ef eitthvað bjátar á. Þau hafa leiðbeint mér og gefið ráð en aldrei gagnrýnt þær ákvarðanir sem ég hef tekið í badmintoninu. Ég hef aldrei fundið fyrir neinni pressu frá þeim um að ég þurfi að vinna mót eða æfa betur heldur hafa þau hvatt mig áfram og sýnt því áhuga sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Þau eru ávallt til staðar fyrir mig og er ég viss um að ég hefði aldrei náð svona langt í badmintoni ef að ég hefði ekki þennan mikilvæga stuðning. Svona stuðningur er gulls ígildi og eitthvað sem mér finnst ótrúlega mikilvægt.

Stuðningur foreldra er eitt það mikilvægasta fyrir íþróttamann

Það er afar nauðsynlegt  í íþróttum jafnt sem í daglegu lífi að hafa trú á sjálfum sér og að vera sáttur með sig en það er ekki eitthvað sem að einstaklingur fæðist með. Andlega vinnan er vinna sem tekur mörg ár. Ég tel að hún ætti að vera hluti af íþróttastarfi og skólastarfi í öllum aldurshópum því það að vera sáttur við sig sjálfan og kunna að meta sig að verðleikum er að mínu mati einn besti eiginleiki sem einstaklingur getur tileinkað sér.

*Myndir: Sportmyndir.

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA