Sonur minn, hann Auðunn Ingi, var að keppa með sínu liði við Breiðablik í fótbolta. Þeir lutu í lægra haldi 7-1. Ég hef upplifað svona tapleiki áður hjá honum en í flestum tilfellum hefur honum og hans liði gengið vel. Í dag lagði hann sig allan fram og spilaði einnig í stöðu sem hann var ekki vanur að spila í seinni hálfleik og leysti það með sóma gegn 1-2 árum eldri strákum. Það var ýmislegt sem var ekki nógu gott í spilinu hjá þeim og gómaði ég sjálfan mig vera að hrópa skipanir inn á völlinn í þeirri von að leikurinn myndi lagast. Í seinni hálfleik rembdist ég við að vera rólegur yfir því að sonur minn væri ekki að spila í sinni réttu stöðu og fann fyrir reiði gagnvart þjálfaranum.
Ég var bara búinn að benda honum á það sem hann hefði getað gert betur.
Tilskipanir hættu að mestu og beindist gremjan yfir á leikskipulagið. Flautað var til leiksloka, strákarnir þökkuðu fyrir leikinn, áttu gott spjall við þjálfarann sinn og gekk svo guttinn í faðm pabba síns og settist sveittur, rjóður og eilítið niðurlútur á læri hans. Ég kyssti hann á ennið og sagði við hann í huggun: „Þið voruð rosalega duglegir“. Hann sagði ekki mikið en í bílnum þá vorum við að ræða málin og komumst að þeirri niðurstöðu að maður lærir mest af svona tapleikjum og fórum yfir nokkur atriði á leiðinni heim, en ég gerði mér ekki fyllilega grein fyrir því fyrr en ég var lagstur upp í rekkju hvað ég sjálfur hafi lært af þessu. Ég var nefnilega bara búinn að benda honum á það sem hann hefði getað gert betur. Þá fékk ég smá sting í hjartað. Ég hef fylgst með honum sparka í bolta og skjóta í körfu frá því að hann var nýfarinn að ganga og hófst þjálfaraferill minn þegar ég bauðst til að aðstoða án endurgjalds á 8. flokks æfingu hjá honum þar sem að voru yfir 20 krakkar á aldrinum 3-5 ára og einn þjálfari. Frábær þjálfari en ekki möguleiki fyrir hann einan að ná utan um æfingarnar og líta í öll horn. Þetta var árið 2013 og var ég þá nýbúinn með leiklistarnámið mitt og var að starfa sem leikari og leikstjóri og búinn að vinna með tugum barna og unglinga bæði i leiklist og svo seinna meir sem deildarstjóri á leikskóla og stuðningsfulltrúi í grunnskóla.
Að gera sitt besta verður að vera gaman annars er það ekki þitt besta
Ég valdi listamanninn því að það starf hefur veitt mér svo mikla gleði og mikið frelsi í huga og tíma, til að skapa og njóta og bæta mig sem manneskju. Ég er enn að þjálfa 8. flokkinn! Ég hef þjálfað aðra yngri flokka í bæði fótbolta og körfu, setið í stjórn og ráðum, tekið þúsundir ljósmynda af íþróttastarfi og sinnt fjölda annarra sjálfboðaliðastarfa og í hvert skipti sem ég þjálfa þessi kríli þá fyllist ég svo mikilli gleði yfir því að fá að kenna börnunum að hafa gaman að íþróttinni. Að sjá mauraboltann smám saman breytast yfir í meiri getu og skipulag en umfram allt að sjá þau brosa og hlæja, sama hvað gekk á í síðustu stöðunni eða í spilinu. Í dag gleymdi ég að vera foreldri að njóta að horfa á þá íþrótt sem barnið mitt elskar að spila en var þess í stað sjálfskipaður þjálfari á áhorfendapallinum að veita tilmæli sem ekki áttu rétt á sér. Fyrir þessa hugljómun er ég þakklátur því að hún minnti mig á það sem ég hef ávallt sagt strákunum mínum og það er: „Að gera sitt besta verður að vera gaman annars er það ekki þitt besta". Ræktum okkar innri bernskugleði, verum jákvæð, uppörvandi og hvetjandi. Það mun endurspeglast í börnunum og þau munu blómstra í því sem þau taka sér fyrir hendur. Eitt er víst að á morgun og framvegis, þegar ég hitti Audda litla, þá mun ég faðma hann og segja: „Ég elska að horfa á þig spila!"