Þegar viðtöl eru tekin við þjálfara og/eða iðkendur eftir keppni eða kappleiki er einbeitingarskortur og/eða einbeitingarleysi mjög algeng skýring slakrar frammistöðu eða mistaka. „Við misstum einbeitinguna og okkur var refsað“.
En hvað er einbeiting og hvenær er iðkandi einbeittur? Iðkandi er einbeittur þegar hann nær að veita einhverju atriði eða atriðum sem skipta máli í íþróttinni fullkomna athygli en á sama tíma veitir hann atriðum sem skipta ekki máli fyrir frammistöðu enga athygli. Að auki skiptir máli að iðkandi einbeiti sér að þáttum sem er undir hans stjórn en veiti þeim atriðum sem eru ekki undir hans stjórn litla eða enga athygli. Dæmi um atriði sem er undir stjórn iðkanda í knattspyrnu er hvernig hann fylgir leikplani en atriði sem er ekki undir hans stjórn gæti verið dómgæsla.
hámarkseinbeiting er að hugsa um það sem er að gerast hér og nú
Það er hægt að flokka það sem truflar einbeitingu iðkenda í tvo flokka. Ytri áreiti og innri áreiti. Ytri áreiti eru í raun öll áreiti sem eiga sér stað í umhverfi iðkandans. Ytra áreiti getur verið það sem andstæðingurinn segir eða gerir en líka hvað samherjar og þjálfarar segja í hita leiksins. Ytri áreiti geta einnig verið hlutir eins og tónlistin í íþróttahúsinu, veðrið eða klapp áhorfenda. Á móti er hægt að segja að innri áreiti séu áreiti sem eiga sér ekki stað í umhverfinu. Innri áreiti geta því verið líkamleg einkenni eins og verkir eða þreyta, tilfinningar og hugsanir. Hugsanir um fortíðina, til dæmis mistök sem iðkandinn gerði stuttu áður, trufla einbeitingu en líka hugsanir um framtíðina, til dæmis hugsanir um það hvernig keppnin muni enda eða hvað þjálfarinn muni segja eftir æfingu. Til þess að ná hámarkseinbeitingu verður iðkandinn því að hugsa um það sem er að gerast hér og nú, en ekki það sem er búið að gerast og ekki það sem á eftir að gerast. Sem dæmi er spjótkastari einbeittur í keppni þegar hann einbeitir sér einungis að framkvæmd kastsins sem er framundan. Hann hugsar ekki um fyrri köst eða í hvaða sæti hann muni enda, ekki um hvað aðrir kastarar eru að gera, eða um hitastigið á vellinum og fylgist ekki með öðrum atburðum stuttu fyrir og á meðan hann er að kasta.
einbeitingarþjálfun er lykillinn
Mikilvægt er að þjálfarar fræði iðkendur sína um hvað einbeiting er og þjálfi upp einbeitingu í stað þess að vonast til að hún sé til staðar þegar á reynir.
Hér koma nokkur góð ráð fyrir þjálfara um hvernig hægt er að vinna með einbeitingu iðkenda:
1.
Spurðu iðkendur að því hvað einbeiting sé og hvers vegna hún skipti máli í íþróttum. Fræddu því næst iðkendurna um hvað einbeiting er og hvað skiptir máli varðandi einbeitingu.
2.
Gerðu lista með iðkendum yfir þá þætti sem þeir hafa fullkomna stjórn á í sinni íþrótt og einnig þá þætti sem þeir hafa ekki stjórn á. Þegar listinn er fullbúinn hjálpaðu iðkandanum að finna orð eða setningu sem hann getur sagt við sig til þess að minna sig á að einbeita sér að þeim atriðum á listanum sem hann hefur stjórn á, en láta þau atriði sem hann hefur enga eða litla stjórn á lönd og leið. Þjálfari getur einnig notað þessi orð eða setningu til þess að minna iðkandann á að einbeita sér að því sem hann hefur stjórn á, til dæmis þegar þjálfari sér að iðkandi er farinn að einbeita sér að störfum dómara.
3.
Láttu iðkanda vita hvað er mikilvægast að hann einbeiti sér að. Passa þarf að þetta séu ekki of mörg atriði. Þegar búið er að velja þau atriði sem á að einbeita sér að kenndu iðkandanum að nota leiðbeinandi sjálfstal. Leiðbeinandi sjálfstal er þegar iðkandi segir upphátt við sjálfan sig eða í huganum hvað hann skuli gera. Ef handboltaþjálfari vill að leikmaður einbeiti sér að því að vera upp með hendur í vörninni getur hann kennt honum að segja við sjálfan sig „hendur uppi“ í hvert skipti sem hann hleypur inn fyrir punktalínu og svo alltaf í hvert skipti sem flautað er aukakast á hans lið.
4.
Kenndu iðkenda að nota venjur fyrir keppni og fyrir ákveðin atriði í íþróttinni. Dæmi um venju fyrir keppni væri ef sundmaður myndi alltaf slá tvisvar á lærin áður en hann færi upp á pallinn. Dæmi um venju fyrir ákveðin atriði í leik væri körfubolta-leikmaðurinn sem myndi alltaf „drippla“ eins áður en hann tæki vítaskot. Mikilvægt er þó að venjur séu þess eðlis að iðkandinn geti framkvæmt venjuna hvar og hvenær sem er, það er að hún sé ekki háð ytri aðstæðum. Einnig er mikilvægt að venjan taki ekki langan tíma og þróist ekki út í hjátrú.
5.
Settu upp æfingar þar sem ytri áreiti eru meiri en gengur og gerist á æfingum. Hægt væri að hafa tónlist hátt spilaða á æfingatíma eða leyfa öðrum iðkendum í félaginu að leika sér inni á ákveðnum svæðum í íþróttasalnum á meðan á æfingu stendur. Iðkendur verða að fá tækifæri til að æfa sig í því að beina athyglinni frá ytri áreitum sem skipta ekki máli í íþróttinni þeirra.
6.
Paraðu iðkendur tvo og tvo saman. Annar aðilinn hefur það hlutaverk á æfingunni að reyna að trufla einbeitingu hins með því til dæmis að kalla á hann þegar hann er að reyna að einbeita sér að því að framkvæma einhverja æfingu eða grínast í honum þegar æfingin er í fullum gangi. Á næstu æfingu verða hlutverkaskipti. Þessi æfing gefur iðkendum einnig tækifæri á að æfa sig á því að beina athygli frá truflandi ytri áreitum.
7.
Settu upp æfingar sem eru keppnislíkar. Á slíkum æfingum er reynt að líkja eftir þeim aðstæðum sem eru í keppni. Sundþjálfari gæti sem dæmi sett upp æfingu þar sem iðkandi hitar upp líkt og hann myndi gera fyrir keppni og fer svo einn á afvikin stað sem á að líkja eftir keppandaherbergi því næst labbar hann í átt að sundlauginni, fer úr yfirhöfninni og svo framvegis.
Með einbeitingarþjálfun er hægt að hjálpa iðkendum í því að stjórna einbeitingunni sinni betur þegar á reynir. Iðkendur sem geta stjórnað einbeitingu sinni eru líklegri til að ná því besta fram í sér og þannig njóta sín betur í íþróttastarfinu.
Þannig verða þeir góðir karakterar.