Athygli er takmörkuð auðlind. Það er ekki hægt að veita öllu athygli. Athygli er hins vegar gríðarlega mikilvæg auðlind fyrir íþróttafólk, því sé hún notuð á skynsamlegan hátt gerir hún íþróttafólki kleift að ná hámarksframmistöðu. Þess vegna er mikilvægt að íþróttafólk noti alla sína athygli á réttu hlutina en eyði henni ekki í óþarfa.
Einbeiting í keppni snýst um að beina athygli sinni að fáum, afmörkuðum og mikilvægum verkefnum í keppninni en ekki að ætla sér að gera allt.
Þegar þú lesandi góður ferð að keppa skaltu hafa eftirfarandi í huga:
- Vertu viss um að þú hafir 2-3 skýr verkefni til að leysa í keppninni.
- Vertu viss um að þessi verkefni séu fyllilega undir þinni stjórn. Hvorki andstæðingar né dómarar eiga að geta hindrað þig í að leysa verkefnið.
- Þessi verkefni þurfa á allri þinni athygli að halda, passaðu þess vegna að eyða ekki athygli í óþarfa hluti sem hjálpa þér ekkert við að leysa verkefnin.
- Æfðu þig á æfingum í að takmarka athyglina við fá afmörkuð verkefni og leystu þau vel.
Að ná að halda athyglinni á verkefnunum sínum og að framkvæma þau í keppni þrátt fyrir hvers kyns hugsanir sem kunna að skjóta upp kollinum er góð einbeiting.