Lengi má manninn bæta

Verkfærakistan
Spekingahornið

Lengi má manninn bæta

Birtist fyrir
16/11/2017
dögum síðan.
Birtist fyrir
16/11/2017
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Freyr Ólafsson

Formaður FRÍ, fyrrverandi íþróttakennari og þjálfari og núverandi stjórnendaráðgjafi

Lengi má manninn bæta

Ég var ekki svo lánsamur að kynnast sykurpúðum í æsku. Ég er ekki viss um að þeir hafi fengist í Kaupfélagi Rangæinga á þeim tíma. Frændur þeirra, sykurmolana sem og fagurlitað kökuskraut, fann ég þó einn og óstuddur í eldhússkápum móður minnar. Grunlaus var ég um að meðan ég gekk hvað harðast fram gegn finnskættuðum sykurmolum austur í Landeyjum rýndu sálfræðingar í Ameríku í hvaða máli skiptir fyrir lífshlaup barna að standast sykraðar freistingar. Sálfræðingarnir settu sykurpúða fyrir framan barn, lofuðu því tvöföldum skammti gegn góðri bið og fylgdust með hvernig því gekk að halda aftur af sér. Með langtímarannsóknum komust þeir að því að lífslánið virtist fylgja ótrúlega vel árangri á þessu ofurlitla prófi í æsku. 

Geta barnanna til að standast freistingarnar, að hemja hvatir sínar í prófinu, hafði mikið forspárgildi um hvernig þeim vegnaði þegar leið á lífið.

Framangreinda speki las ég í bókinni um sykurpúðaprófið, The Marshmallow Test. Vegna sambúðar minnar við sykur og aðrar freistingar í æsku var ljóst í upphafi bókar að vonir mínar til árangurs í lífinu væru mjög takmarkaðar. Ég var að því kominn að henda bókinni á haugana. Það bráði þó af mér, ég las bókina til enda og eygði að endingu smá von.

Von mín vaknaði við að finna út að börnin sem stóðu sig betur á sykurpúðaprófinu voru ekki endilega fædd með meira mótstöðuafl. Það sem frekar réð var hve fær þau voru að „fífla“ sig sjálf. Börnin sem stóðu sig betur settu jafnvel upp lítil leikrit í huganum. Þau gáfu sér að molarnir væru myndir, lærðu að telja endalaust fingur og tær eða söngla lag. Þau gerðu hvað þau gátu til að halda löngun í freistingu frá. 

Það hvernig við tökumst á við freistingar getum við sem sagt undirbúið og æft og sannarlega þar með æft börnin okkar og aðra áhugasama í færninni.

Auðvitað má segja að auðveldasta leiðin til að standast freistingar sé að koma þeim úr augsýn. Heima borðum við ekki bollurnar sem bíða enn í búðinni. Símar titra ekki í tíma og ótíma nema stillingarnar leyfi það. En jafnvel þó að okkar sé freistað, getum við undirbúið viðbrögðin, skipulagt og jafnvel æft. Þreytt og/eða óundirbúin erum við líklegri til að falla í freistni, æfð og undirbúin getum við staðið klár. 

Fyrir suma er nóg að taka eina ákvörðun, aðrir þurfa að undirbúa sig og æfa reglulega allt upp í nokkrum sinnum yfir daginn… jafnvel alla ævi.

Að loknum lestri bókar var sem sagt niðurstaða mín að ég væri ekki með öllu vonlaus. Þrátt fyrir grá hár og grunn sem augljóslega var vart á byggjandi væri nú mest um vert að gyrða sig í brók, gefast ekki upp fyrir sjálfum sér. 

Með vilja og smá von má lengi manninn bæta!

 

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA