Ég gleymi því aldrei þegar ég klæddist landsliðsbúningnum í fyrsta skipti. Mér hafði aldrei dottið það í hug þremur árum áður að ég yrði valinn í boðhlaupssveit til að keppa fyrir Íslands hönd. Ég var búinn að æfa spretthlaup í fimm mánuði, kunni lítið og vissi lítið, en gat hlaupið ágætlega hratt. Ég hafði fínan hreyfingarbakgrunn þar sem ég hafði lagt ágætlega mikla stund á Crossfit og almenna þrekþjálfun en þetta var allt annað dýr að eiga við. Ég tók eftir því hvað ég var snöggur að bæta á mig vöðvamassa og átti auðvelt með að æfa mikið. Ég sá fljótt miklar bætingar. Ég vissi ekki þá að það var einmitt það sem átti eftir að koma mér á þann stað sem ég er á í dag. Það var samt þannig að eftir því sem ég lærði meira og skildi meira í spretthlaupunum varð ég alltaf óöruggari með mig. Það vantaði allan grunn í mig og alla tækni. Að vissu leyti var líkaminn minn ekki tilbúinn að hlaupa svona hratt á jafn stuttum tíma eins og gerðist þessa fyrstu mánuði mína í hlaupunum. Ég var snöggur að finna fyrir svæsinni beinhimnubólgu sem ég átti eftir að þurfa að eiga við alveg til dagsins í dag.
þetta var allt annað dýr að eiga við
Í öllum mínum hlaupum (bókstaflega) fram til sumarsins 2016 var ég síðastur eftir fyrstu 30-40 metrana. Hvers vegna? Það var margt að, en þá sérstaklega tæknin og minn eigin skilningur á hreyfifræði. Eftir þessa 30 metra byrjaði keppnin mín. Þá fór ég að týna einn og einn upp. Síðustu 20 metrarnir voru mínir allra sterkustu. Þá kom styrkleikinn minn í ljós. Ég var sterkur og gat haldið lengur út en hinir. Það tel ég að sé fimm ára þrekþjálfuninni að þakka. Á hverri einustu spretthlaupsæfingu vörðum við þjálfarinn minn löngum tíma í að skoða hvað væri að, af hverju ég "sæti svona eftir" í öllum keppnum. Út frá því reyndum við að bera mig saman við heimsklassa 100m hlaupara með video-tækni. Ég er ekki frá því að ég hafi legið sem samsvarar mörgum vikum fyrir framan internetið í að greina og skilja hvernig ég sker mig frá þeim allra bestu þegar lagt er af stað úr startblokkunum. Það var alveg sama á hvaða móti ég keppti eða hvaða æfingahlaup ég hljóp, alltaf kom fólk upp að mér (þó ég hafði unnið) og sagði við mig: "Þú varst nú heldur hægur og seinn í startinu".
ég var sterkur
og gat haldið lengur út en hinir
Þetta fór yfirgengilega í taugarnar á mér því ég vissi það líklega manna best hvað hefði átt sér stað í hlaupinu þar sem ég hljóp það sjálfur. Ég fékk nánast aldrei að upplifa einhverja sigurtilfinningu vegna þess hversu þungt það lá á mér, þó ég hafði unnið, hvað ég var eftirá í byrjun. Mikil gremja fór þá að eiga sér stað á æfingum þegar ég fór að æfa störtin. Ég vissi nákvæmlega hvað ég átti að gera en ég bara gat það ekki. Ég skildi ekki af hverju. Svo gerðist það í nóvember 2015 á einni af þessum gremju æfingum að ég skaust út úr startblokkinni og upplifði strax að ég væri EKKI að gera það sem ég ætlaði mér að gera og skelli niður hægri fætinum fyrir framan mig og stoppa mig í einu skrefi. Við þetta brotnar upp úr beinleggnum á mér og ég upplifi mín fyrstu meiðsli á mínum íþróttaferli. Ég var frá í tæpar átta vikur og tók því mjög nærri mér að þetta hafi gerst. Sérstaklega vegna þess að þetta voru meiðsli sem ég skapaði mér. Ég var ekki þolinmóður og vildi að hlutirnir gerðust hraðar en þeim var ætlað. Mér var refsað.
Hér komum við aftur að landsliðsgallanum. Þegar ég klæddist honum í fyrsta sinn þurfti ég ekki að hafa neinar áhyggjur af startinu eða byssunni eða neinu sem tengdist veikleikum mínum vegna þess að ég hafði verið settur á síðasta legginn í boðhlaupinu. Þar tek ég við keflinu á eins miklum hraða og ég og samherji minn treystum okkur til. Svo er bara að stíga allt í botn og keyra með keflið í mark. Þetta var í Tibilisi, höfuðborg Georgíu, og settum við nýtt Íslandsmet á því móti. Þarna naut ég mín og ég hugsaði með mér hvort ég ætti ekki bara að leggja þetta fyrir mig. Hætta að velta mér upp úr þessu starti og allri þeirri gremju sem því fylgir og hlaupa bara hratt. Þetta sama kvöld rann upp fyrir mér að ég, 25 ára gamall trompetleikari sem hafði slysast inn á frjálsíþróttaæfingu, hafi verið að setja Íslandsmet í boðhlaupi með landsliðinu. Ég hugsaði með mér að þetta væri eitthvað sem ég kynni vel við, þessi tilfinning var eitthvað nýtt sem ég hafði ekki upplifað áður.
ég, 25 ára trompetleikari, setti Íslandsmet með landsliðinu
Ég var búinn að ferðast um allan heim að spila á hljóðfærið mitt og fyrir fullum tónleikasölum, inn á vinsælustu lögin og margverðlaunaðar plötur en þetta var alveg ný tegund tilfinningar. Nú þyrfti ég bara að vinna í veikleikum mínum og efla styrkleikana og þá væri ég óstöðvandi. Ég varð stoltur af mér og strákunum fyrir að hafa sett þetta Íslandsmet en stóra kirsuberið fyrir mig var hversu ungur ég var í þessari íþrótt en fékk strax smjörþefinn af því að vera "fremstur" á Íslandi.
Tveimur árum síðar, sumarið 2016, sló ég 19 ára gamalt Íslandsmet í 100m spretthlaupi. Það var engu öðru að þakka nema endalausum æfingum, pælingum, vangaveltum og hugrænni framköllun þegar ég lá uppi í rúmi eða var að keyra, hvernig ég ætti að framkvæma fyrstu 30-40 metrana. Það sem skilaði mér nýju Íslandsmeti var sambland af frábærum æfingafélögum, þjálfurum og auknu sjálfstrausti á því sem ég var að gera, þ.e. taka út slæma ávana og setja inn nýja.
Nú gefst mér kostur á að æfa með fremsta íþróttafólki heims sem er að undirbúa
sig fyrir sín næstu afrek. Það er að gera það sama og ég, breyta slæmum ávönum og
setja inn nýja og betri sem koma þeim hraðar í mark. Eitthvað sem ég ætla að
gera þangað til næsta verkefni tekur við.