Að taka næsta skref og setja ný markmið

Verkfærakistan
Spekingahornið

Næsta skref

Birtist fyrir
19/4/2017
dögum síðan.
Birtist fyrir
19/4/2017
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Dominiqua Alma Belányi

Afrekskona í fimleikum

Að taka næsta skref og setja ný markmið

Ég hef oft heyrt talað um fallið sem kemur eftir að hafa náð toppnum, eftir að hafa náð markmiðum sínum eða eftir að íþróttaferli lýkur. Við höfum séð ótrúlega marga af flottustu íþróttamönnum heims úr öllum greinum falla frá toppi veraldar í dýpstu gryfjurnar eftir að þau hafa uppfyllt drauma sína að keppa á ákveðnum stórmótum, ná markmiðum eða bregðast bæði eigin væntingum og heimsins. Íþróttamenn læra allt sitt líf að setja sér markmið sem þau vinna að sama á hverju dynur. 

En hvað kemur eftir að hafa uppfyllt draumana? Hver eru næstu markmið? Hvert er næsta skref?

Stór hluti lífs margra íþróttamanna fer í æfingar og þeim fylgja oft persónulegar fórnir og val sem geta haft áhrif á allt það sem kemur eftir íþróttaferilinn. Íþróttafólk leggur ótrúlegustu hluti á sig til þess að upplifa drauma sína og markmið. Margir íþróttamenn taka ákvarðanir sem hafa miklar breytingar í för með sér til þess að uppfylla markmið og drauma, meðal annars að flytja langt frá fjölskyldum sínum til þess að æfa við betri aðstæður eða fá betri þjálfun, leggja akademískt nám til hliðar og gefa upp sambönd. Þessir þættir styrkja einstaklinga á öðruvísi hátt og eru íþróttamenn almennt taldir vera andlega sterkir einstaklingar. Það eru þessir eiginleikar sem gera það að verkum að íþróttamönnum finnst erfitt að leita sér hjálpar og viðurkenna veikleika sína við að vita ekki hvað kemur næst.

Sjálf hef ég verið að pæla í þessum spurningum undanfarið. Ég er búin að æfa áhaldafimleika í rúm 20 ár og allt mitt líf hefur snúist um íþróttina. Allar þær ákvarðanir sem ég hef tekið hingað til voru teknar með tilliti til fimleikana. Hvað er langt í EM? Ef ég fer í háskóla núna, næ ég þá að klára rétt fyrir HM? Að fara á skíði? Nei, ég þarf að passa krossböndin. Frí til útlanda? Bara ef það hentar inn í keppnistímabilið. Og ég spyr mig svo oft að þessu: Af hverju er ég að þessu? Það fer endalaus tími í fimleikana og æfingar, ég hef þurft að taka erfiðar ákvarðanir, meiðslin mín hafa verið alvarleg og ég hef séð draumana sigla í burtu frá mér. En af hverju er ég þá að þessu? 

Það er vegna þeirra ólýsanlegu tilfinninga að ná markmiðum sínum og þegar allt gengur upp. Ferðalagið sjálft. 

Mörgum íþróttamönnum finnst erfitt að þurfa að taka næsta skref eftir að ferlinum lýkur. Það var svo margt sem fylgdi því að vera íþróttamaður; árangurinn, titlarnir, viðurkenningin, athyglin, ferðirnar, æfingafélagarnir, tilfinningin. Hvenær er því rétti tíminn til að hætta? Er einhver réttur tími? Margir þurfa að hætta vegna meiðsla eða áverka sem gera það að verkum að þau geti ekki æft lengur. Aðrir íþróttamenn fá bara nóg og vilja snúa sér að öðru. En hvað með þá sem týnast á leiðinni?

Erfitt getur verið að fylla upp í þá holu sem íþróttirnar skilja eftir sig eftir að íþróttamenn ákveða að ferlinum lýkur. 

Að hætta í keppnisíþrótt og taka skref í aðra átt er eitthvað sem allir afreksíþróttamenn þurfa að takast á við en eru mörg hver skíthrædd við að gera. Íþróttin er orðin hluti af manni, hluti af manns sjálfi og manni finnst maður vera að týna sjálfum sér með því að skilja við þennan ákveðna hluta. Það getur reynst mörgum íþróttamönnum erfitt að finna ástríðu fyrir einhverju nýju sem er jafn stórt og íþróttin sem maður elskaði og lagði allt í. Margir íþróttamenn hætta og stíga aldrei aftur fæti inn í salinn, inn á völlinn eða ofan í laugina eftir að ferlinum lýkur. Þau fá bara nóg. Aðrir finna sig fljótt í öðru innan greinarinnar; verða dómarar, þjálfarar, vinna í kringum íþróttina, eða á allt öðrum sviðum í lífinu.

Það er í lagi að týnast á leiðinni. Það er ekki margir íþróttamenn sem viðurkenna það, en það gerist við mun fleiri íþróttamenn en við gerum okkur grein fyrir, hvort sem þau eru heimsþekkt eða ekki. Mikilvægast er að fá skilning og hafa stuðning til þess að íþróttamenn geti fundið sig aftur í einhverju nýju sem gefur þeim jafn mikið og íþróttin sjálf gerði. Við þurfum að læra að setja okkur ný og öðruvísi markmið og njóta ferðalagsins sem kemur eftir íþróttaferilinn.  

 

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA