Hlynur Chadwick Guðmundsson er yfirþjálfari Aftureldingar í frjálsíþróttum í Mosfellsbæ. Hann hefur kennt börnum íþróttir og tómstundir í 1.- 4. bekk í grunnskólum Mosfellsbæjar (hin síðari árin 1. og 2. bekk). Hann segir það skila sér í ófeimnari og opnari ungmennum.
Ég hef nú í næstum 20 ár skipulagt og stýrt Íþrótta- og tómstundasetri fyrir börn í Mosfellsbæ. Börn eiga að fá tækifæri til að kynnast alls konar íþróttum og tómstundum og það strax á fyrsta stigi grunnskólans. Íþróttir og tómstundir barna eru náttúruleg hreyfing og sköpun og með því að kynnast þeim snemma er lagður grunnur að framtíðarárangri, segir Hlynur.
Ungmenni búa að þeirri þekkingu á íþróttum sem þau fengu í æsku
Ég er sannfærður um að ungmenni búi að þeirri þekkingu á íþróttum sem þau fengu í æsku. Minni líkur eru á því að ungmenni leiðist út á óæskilegar brautir seinna meir, hvað þá að þau brjóti af sér, ef þau stunda skipulagt íþrótta- eða tómstundastarf. Frístundakynning í æsku eykur líkurnar á því að ungmenni stundi heilbrigðari lífsstíl en ella, segir Hlynur.
Hugmyndina segir hann hafa komið upp fyrir síðustu aldamót þegar sást að eitthvað nýtt þyrfti að gera í forvörnum barna fyrir unglingsárin. Íþróttir og tómstundir voru orðnar nokkuð staðnaðar í Mosfellsbæ árið 1997, frekar fá börn og ungmenni í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og lítið að gerast. Það voru einnig hópar 12-15 ára unglinga að myndast sem slæptust um á kvöldin og höfðu ekkert fyrir stafni. Ég átti ungling á þessum tíma og fór nokkrum sinnum í foreldrarölt að kvöldi til með öðrum foreldrum. Krakkarnir hittust í sjoppu í miðbænum á kvöldin og áttu sína staði til að hittast á. Við fórum á nokkra staði og ræddum við krakkana. Mér þótti þetta leiðinlegt að sjá, enda kannaðist ég við krakkana úr skólastarfinu. Ég spjallaði við krakkana og hlustaði eftir því hvort þeir hefðu eitthvað fyrir stafni seinnipart dags eða um helgar. Svo reyndist ekki vera. Það var eins og þá langaði til að vera í íþróttum eða öðrum tómstundum en voru feimnir við það á þessum aldri vegna vankunnáttu. Ég tók að brjóta heilann um það hvað væri hægt að gera svo að ungmennin hefðu eitthvað skapandi að gera og væru opnari, en lentu ekki í þessari stöðu, segir Hlynur.
Sigurður Guðmundsson, íþróttafulltrúi Mosfellsbæjar, og Hlynur funduðu saman og fengu þá hugmynd sem má segja að sé enn við lýði í dag. Í henni fólst að bjóða börnum í fyrstu bekkjum grunnskóla upp á íþrótta- og tómstundastarf þar sem þau fengu kynningu á grunnatriðum í þeim íþróttagreinum sem Afturelding býður upp á og þeim tómstundum sem boðið er upp á í Mosfellsbæ. Ekki er um skipulagðar æfingar að ræða heldur kynningarstarf þar sem börn fá að kynnast ýmum íþróttagreinum og tómstundum og fá að prufa sig áfram og finna hvað hentar.
Í Íþróttafjörinu eru kynntar ýmsar greinar á borð við golf, skák, íslenska glímu, skátastarf og margt fleira
Við fórum af stað með þetta sem tilraunaverkefni árið 1998 og það hefur gengið frábærlega síðan. Ég verð að segja að ég er sáttur við árangurinn nú 19 árum síðar. Í Íþróttafjörið mæta 40-50 börn á dag úr grunnskólum Mosfellsbæjar, um 170-200 í hverri viku.
Íþróttafjörið fer fram að skóla loknum í frístundinni. Það fellur innan skólastarfsins og því þurfa foreldrar ekki að skutla börnum sínum neitt. Í Íþróttafjörinu eru kynntar ýmsar árstíðabundnar greinar á borð við golf að vori, skák, íslenska glímu, skátastarf og margt fleira. Yfir háveturinn er einblínt á það íþróttastarf sem Afturelding í Mosfellsbæ býður upp á.
Ég tel árangurinn stórkostlegan. Ungmenni eru hætt að slæpast á kvöldin og fleiri stunda íþróttir og tómstundir. Ég stóð mig að því í kringum 2008 að ég var farinn að hafa gaman af því að fara á heimaleiki Aftureldingar til að sjá bæði karla- og kvennaliðin keppa í meistaraflokkum. Þar og sérstaklega síðar sá ég nefnilega marga sem höfðu komið í íþróttafjörið hjá mér og hafa fundið sína fjöl fyrir unglingsárin og eru að gera góða hluti í dag.
Með því að gefa börnum tækifæri á því að kynnast ýmsum íþróttum og öðrum tómstundum trekk í trekk aukast líkur á því að þau finni sína framtíðar frístund fyrr
Dæmi um einstakan tíma í setrinu að Varmá:
Alltaf eru í gangi fjórir þemahópar með mismunandi frístundum til að velja um. Börnin fá þemadagskrá í sinn skóla fyrirfram til að ákveða hverju þau vilja kynnast í hvert skipti.
Alltaf er tekið á móti öllum börnum með hlýhug og þeim sýnt að þau séu velkomin.
Alltaf er haldinn stuttur fundur um verkefni tímans.
Alltaf er farið yfir umgengni og agi kenndur.
Alltaf er kennd hugarþjálfun og hún framkvæmd.
Kennd eru grunnatriði og önnur einkenni íþróttar og allir fá að prufa og leika.
Tíminn byrjar eða endar á æskuleik.
(.. undantekningalaust fara börn hamingjusöm frá setrinu með góða upplifun).
Í ljós hefur komið að við erum líka að leggja drög að framtíðar afreksfólki okkar fyrir þjóðina, sem fyllir okkur stolti.
Með því að gefa börnum tækifæri á því að kynnast ýmsum íþróttum og öðrum tómstundum trekk í trekk aukast líkur á því að þau finni sína framtíðar frístund fyrr. Sem þjálfari til margra ára get ég sagt að það að fá einstakling í hendurnar sem kemur með áhuga og rétt hugafar á æfingar getur skipt sköpum í allri framtíðar þjálfun.