Eitt af því mikilvægara sem ég upplifi sem þjálfari er margbreytileiki og þróun aðferða við ferðalagið að markmiðinu, hvert sem það er.
Við lifum á tímum sem gefa okkur óendanlegar upplýsingar og tækifæri í þróun íþróttanna hvort sem um er að ræða æfingar, útbreiðslu eða kynningu.
Ég man þá tíma þegar aðgengi að íþróttum var takmarkað við þá starfssemi sem fram fór í íþróttahúsunum, fréttum í dagblöðum og útvarpi. Þetta var þegar útvarpsstöðvarnar voru ein eða tvær og útsendingar í sjónvarpi fáar. Maður vissi varla hvaða íþróttir voru til í heiminum því upplýsingarnar voru bundnar við línulega dagskrá eða tiltekna útgáfutímarits eða dagblaðs.
Þjálfunaraðferðir þá voru ekki jafn aðgengilegar og nú. Þvert á móti voru þær og bundnar við þau beinu sambönd sem fólk í íþróttum hafði skapað í samskiptum hvert við annað, „íþróttaheimurinn“ var pínulítill og möguleikar til vaxtar gengu á hraða snigilsins miðað við í dag.
upplýsingaflæðið gerir iðkendum kleift að brjóta öll landamæri
Nútíminn gefur okkur allt aðra og ansi fjölbreyttari mynd en lýst er að ofan; internetið og allir þeir fylgihlutir sem tengjast því (eitthvað sem hefði verið mjög erfitt að útskýra fyrir ömmu og afa fyrir 40 árum) gera okkur kleift að ná í nær allar þær upplýsingar sem okkur lystir - og meira en við getum innbyrt séu allar gáttir opnaðar.
Heimsþekktir þjálfarar eru aðgengilegir allan sólarhringinn gegnum YouTube-rásir og aðrar internetgáttir, nær allir íþróttaviðburðir eru við hendina og upplýsingaflæðið gerir iðkendum kleift að brjóta niður öll landamæri.
Starf þjálfarans hefur líklega aldrei verið skemmtilegra og nú - en um leið e.t.v. sjaldan verið samkeppnisvænna. Þannig getur þjálfarinn auðveldlega miðlað reynslu sinni, tengst áhrifavöldum, aukið þekkingu sína og unnið að útbreiðslu á íþrótt sinni. Öllu þessu getur þjálfari sinnt í gegnum eitt símtæki og eina litla fartölvu. Allt sem þarf til viðbótar er opinn hugur og vinnulag sem getum unnið með nýjum verkfærum og tækifærum.
þjálfarinn getur miðlað reynslu, tengst áhrifavöldum, aukið þekkingu og unnið að útbreiðslu í gegnum eitt lítið tæki
Karateíþróttin hefur verið mér einstakur vettvangur. Í ástunduninni hef ég komist að því hver ég í raun og veru er; hvernig ég bregst við áskorunum, hvað tilfinninglegur vöxtur er mikils virði, hvernig erfiðar æfingar hafa mótað mína líkamlegu og andlegu getu og hvernig öll tengslin hafa aukið ríkidæmið í lífinu.
Síðustu misserin hef ég einbeitt mér að þjálfun. Ég lít orðið á mig sem þjónustufulltrúi minna nemenda. Ég veiti þeim þá bestu þjónustu sem ég hef upp á að bjóða til að auðga getu þeirra og líf.
Það má því segja að ég starfi við að hafa áhrif á líf fólks. Þessu starfi verður að fylgja mikill metnaður og er þjónusta mín við iðkendur og Karatesambandið bundið við hann.
Hins vegar getur þjálfarastarfið verið svo miklu meira en bein tengsl við iðkendur á æfingum. Þannig hefur hlutverk símans tekið gríðarlegum og mikilvægum breytingum og þjónað mér og iðkendum mínum á fleiri vegu en áður; Allar æfingar og keppnisferðir eru skrásettar í vídeói með tæki, á stærð við litla vasatölvu, sem tekur vandaðri myndir en sjónvarpsvélar gerðu fyrir nokkrum árum. Þarna liggja tækifæri í hlutfallslega lítilli vinnu en getur skapað ótal tækifæri, aukið tengsl íþróttarinnar út á við og styrkt undirstöðuþætti þjálfunarinnar.
Iðkendur fá greinagóðar upplýsingar um framvindu með klipptum atriðum úr æfingum og keppnum
Tölum nú um möguleikana:
Iðkendur fá greinagóðar upplýsingar um framvindu sína með klipptum atriðum úr æfingum og keppnum, útbreiðsla; vídeórás Karatesambandsins á Youtube er í dag safn full af samsettum myndböndum og örþáttum sem nota má í útbreiðslu og kynningu á íþróttinni. Öllum fréttum og tilkynningum á samfélagsmiðlum fylgja vídeó með því efni sem talað er um. Auðvelt er að setja inn auglýsingamerki í byrjun eða enda stiklunnar, eða í eitt af hornum skjásins, textaupplýsingar, tónlist og allt sem manni dettur í hug.
Í raun eru möguleikarnir óþrjótandi, sem minnir mann á að hugarfar þjálfarans þarf að vera síþyrst, maður þarf ávallt að vera að bera saman þekkingu og leita nýrra leiða, bæði með sjálfan sig og umhverfi. Ef maður gerir það ekki þá situr maður eftir, því heimurinn er fullur af fólki sem er síþyrst í þekkingu.
Á meðfylgjandi YouTube-rás Karatesambands Íslands má sjá um 60 vídeó stiklur af starfi landsliðsins á einn eða annan hátt, tekin á tæpum tveimur árum. Þar eru fræðsla, mót, æfingar, viðtöl, ofl. Hafið í huga að öll vídeóin eru tekin á síma.
https://www.youtube.com/channel/UCNyC7gS5u8wpfbwbOBaza6A/videos