Þórir Hergeirsson hefur náð langt sem aðalþjálfari norska kvennalandsliðsins í handknattleik. Hann er frá Selfossi en hefur verið búsettur í Noregi í meira en 30 ár. Þórir hefur verið í þjálfarateymi norska liðsins frá árinu 2001 en tók við sem aðalþjálfari árið 2009.
Með liðinu hefur hann á síðastliðnum átta árum unnið þrjá Evrópumeistaratitla, tvo heimsmeistaratitla og einn Ólympíutitil.
Þórir segir mikilvægt að byrja snemma að vinna með gildi í íþróttum með það fyrir augum að koma reglu á liðið, móta hópinn og gera æfingar skemmtilegar. Mikilvægasta vinnan felst í því að kenna börnum og unglingum að haga sér vel og hvenig þau komi fram við aðra, að hans sögn.
„Ég tel að það sé mjög mikilvægt að byrja að vinna með gildin eins snemma og hægt er. Kannski ekki með flókin orð heldur með það hvernig við viljum hafa hlutina, hvernig við viljum hafa hópinn og hvað við gerum til að þrífast saman svo mann hlakki til að koma á næstu æfingu. Ég nota oft þetta gamla góða, komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig,“ segir hann.
Þórir segir mikilvægt að virkja sem flesta í liðinu eins fljótt og hægt er, sérstaklega ef liðsmenn eru komnir á unglingsaldur. Á sama tíma verði iðkendur að gera sér grein fyrir því að fæstir sem æfa íþróttir komast í landslið þótt viðkomandi hafi það að markmiði. Þar sem markmið um að komast í landslið eru fjarlæg og ólíklegt að þau náist þá segir hann drauma um markmiðin koma í þeirra stað. Draumarnir viðhaldi áhuganum á íþróttinni.
„Það á ekki að einblína á stóru markmiðin. En það er gott að dreyma. Það er mjög gott að þora og fá leyfi til að dreyma dagdrauma. Að mig langi til að verða þetta og komast þangað. Maður á að geta látið sig dreyma um að spila í landsliðstreyju. Það er mjög góð næring fyrir áhugahvötina og því mikilvægt að hafa þessa drauma.“