#1 Hildur Karen - ÍA

Verkfærakistan
Spekingahornið

#1 Hildur Karen - ÍA

Birtist fyrir
2/7/2019
dögum síðan.
Birtist fyrir
2/7/2019
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Hildur Karen Aðalsteinsdóttir

Framkvæmdastjóri ÍA

ia@ia.is

#1 Hildur Karen - ÍA

Föruneyti Sýnum karakter gerði sér ferð upp á Akranes til þess að eiga samtal við Hildi Karen Aðalsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Íþróttabandalags Akraness - ÍA. Hildur Karen getur af sér gott orð fyrir störf sín í gegnum tíðina og því fróðlegt að sjá og heyra hvernig hún sýnir karakter í sínu lífi og starfi.

Samtalið við Hildi Karen má hlusta á hér á hlaðvarpssíðu Sýnum karakter. Einnig er hægt að lesa stutta samantekt úr samtalinu hér fyrir neðan.

Myndir frá ferðinni má sjá hér á myndasíðu Sýnum karakter.

Hildur Karen Aðalsteinsdóttir er fædd og uppalin í Bolungavík. Hún segir það algjör forréttindi að hafa fengið að alast upp í Bolungavík á þeim tíma sem hún ólst upp þar. Það var uppgangur, lífið snérist um íþróttir, frjálsar og fótbolti á sumrin, skíði og sund á veturna. Fjölskyldulífið snérist um íþróttir. Þetta uppeldi mótaði hana sem manneskju og það var snemma ljóst að Hildur ætlaði að verða íþróttakennari.

Þegar þau hjónin, Hildur Karen og Gunnar H. Kristinsson, höfðu í huga að flytja aftur heim eftir nám í Danmörku settu þau sér það skilyrði að það yrði að vera gott íþróttastarf þar sem þau ætluðu að búa. Þau hjónin eru mjög sátt með að hafa flutt á Akranes eftir námið, þar sem þau geta alið upp börnin sín í svipuðu umhverfi og þau sjálf ólust upp í. Nú starfar Hildur Karen sem framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness og líkar það vel.

Íþróttahreyfingin er ekkert eyland, við getum ekki gert allt ein.

Hún segir íþróttir skipta miklu máli á Skaganum. Það eru góðir skólar og það er gott íþróttastarf. Hún segir eftirtektarvert að sjá einstaklinga sem hafa áhuga á einhverju, taka sig saman og koma einhverju á koll. Til dæmis má nefna Smiðjuloftið á Skaganum, en hún fór þangað í heimsókn með föruneyti Sýnum karakter. Frábært var að ræða við hjónin Valgerði Jónsdóttur og Þórð Sævarsson sem reka Smiðjuloftið og ljóst að þar býr eldmóður og þörf á að skapa.

Hildur Karen er menntaður grunnskólakennari með íþróttir sem val. Hún starfaði sem umsjónarkennari í 17 ár og er nú búin að vinna í þrjú ár hjá ÍA. Hún hugsar starf ÍA eins og að reka skóla. „Við erum ekkert öðruvísi en skólarnir. Uppbygginguna hugsum við dálítið eins og við séum að reka skóla. Við þurfum að vera í góðu og þéttu samstarfi við skólana og erum það sem betur fer. Við erum með gott aðgengi að sérfræðingum hjá Akraneskaupstað. Það er ómetanlegt að vinna svona vel saman. Íþróttahreyfingin er ekkert eyland, við getum ekki gert allt ein, við þurfum á fólkinu og samfélaginu að halda til að keyra okkur áfram.

Íþróttahreyfingin er svo margt annað en æfingar og keppni, við erum að byggja upp manneskju.

Það sem er merkilegt við starfsemi ÍA er að bandalagið sér um rekstur á þrekaðstöðu bæjarins í þéttu samstarfi við bæinn. „Við eigum húsnæði að hluta til á Jaðarsbökkum og við eigum öll þrektækin. Við erum með rekstarsamning við bæinn. Við fáum 80% af allri innkomu, bærinn 20%. Hagnaður af þrekaðstöðunni skilar sér til aðildafélaga okkar í beinum styrkjum. Allt okkar afreksfólk fær gjaldfrjálsan aðgang að þrekaðstöðunni okkar. Þetta skiptir öllu máli fyrir aðildarfélögin. Íþróttahreyfingin er svo margt annað en æfingar og keppni, við erum að byggja upp manneskju og það að búa í samfélagi er hluti af uppeldi og við tökum það hlutverk alvarlega.“

Samtalið má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpssíðu Sýnum karakter hér.

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA