Ég var á öðru ári í menntaskóla þegar ég byrjaði að æfa skotfimi. Foreldrum mínum fannst sem ég hefði full mikinn frítíma þannig að pabbi, sem æfir skotfimi sjálfur, spurði hvort ég vildi ekki koma með og prófa.
Það var eitthvað við fyrstu æfinguna sem kveikti áhuga hjá mér.
Þetta var engan veginn eins og í bíómyndunum þar sem góði gæjinn hittir allt með minnstu fyrirhöfn sama hvað gengur á í kring um hann.
Þvert á móti.
Áhuginn og þrjóskan leyfðu mér ekki að hætta
Þarna stóð ég með loftbyssu, miðandi á skotmark sem hreifðist ekki á aðeins 10m færi en samt (þrátt fyrir að vera góður gæji) átti ég í mesta basli með að hitta skotmarkið, hvað þá tíuna. Það var ekkert sem kom í veg fyrri að ég hitti tíuna nema ég sjálfur og þar með var mitt ferðalag í íþróttinni hafið.
Áhuginn og þrjóskan leyfðu mér ekki að hætta.
Áhuginn dró mig á fleiri og fleiri æfingar en það var engin „fórn“ að eyða meiri og meiri tíma á skotsvæðinu. Enginn neyddi mig til þess. Ég hafði einfaldlega brennandi áhuga á því að bæta mig.
Í mörg ár hafði ég engan þjálfara en var svo heppinn að vera umkringdur fólki sem hafði áhuga. Pabbi og aðrir skotmenn gáfu mér leiðbeiningar og tillögur um það hvernig ég gæti bætt mig. Þetta var nefninlega allt fólk sem hefur einlægan áhuga á sínu áhugamáli og þá eru engin „leyndarmál“. Það var enginn sem vildi ná árangri á kostnað annarra, enginn sem hélt þekkingu leyndri. Allir vildu að öðrum gengi vel.
Í þannig andúmslofti er allt hægt og ég var svo heppinn að alast upp í því. Ég eyddi talsverðum tíma í að prufa allar þær tillögur sem mér var gefið. Sumar virkuðu fyrir mig en aðrar ekki og eftir nokkur ár var ég kominn með frábæran og mjög stöðugan grunn sem lítið mál var að byggja ofan á.
Það var enginn að reyna að vera betri en einhver annar
Á þeim tíma er ég byrjaður að keppa erlendis sem landsliðsmaður og hitti enn fleira fólk sem hafði einlægan áhuga. Heimsklassa íþróttarmenn, atvinnu- og áhugamenn af báðum kynjum tóku öllum mínum spurningum með brosi á vör og gáfu heiðarleg svör. Engir stælar, engin hroki heldur bara áhugi. Það var enginn að reyna að vera betri en einhver annar heldur voru allir að reyna bæta sjálfan sig. Það er mjög gefandi og hvetjandi að vera í svoleiðis andúmslofti og miklu auðveldara að ná árangri.
Við erum umvafinn áhuga
Á keppnisferli mínum hefur ýmislegt gengið á. Sum ár hafa verið mjög góð en önnur hef ég ekki verið ánægður með árangurinn. Þegar ekkert virðist ganga upp þá á áhuginn til að minnka talsvert. Þegar það gerist er ég mjög heppinn með baklandið mitt en það er akkúrat fullt af fólki sem hefur brennandi áhuga og sá áhugi er mjög smitandi. Enginn getur nefnilega staðið í þessu einn. Það er alveg saman hversu sjálfstæður og góður íþróttamaðurinn er þá þurfum við öll hjálp. Sú hjálp kemur allstaðar frá; fjölskyldu, vinum, þjálfara, sérsambandi og íþróttélagi. Allt þetta fólk hefur áhuga á því sem við íþróttarfólkið gerum og öll eru þau tilbúinn að hjálpa okkur upp ef við dettum.Við erum umvafinn áhuga.
Það er alveg sama hvað við tökum okkur fyrir hendur, við náum aldrei árangri nema að hafa áhuga á því sem við gerum. Ég myndi aldrei eyða tugum tíma á viku í æfingar eða eyða talsverðum tíma í æfingar/keppnisferðir, fjarri vinum og fjölskyldu, ef ég hefði ekki áhuga. Ég hefði aldrei fengið tækifæri til að gera þessa hluti, ferðast um heiminn og sinna íþróttinni, nema vera umkringdur fólki sem líka hefur brennandi áhuga.
Ég bið ykkur því öll (ég þar með talinn) að reyna að sleppa öllum hroka og stælum, byggjum upp jákvætt andrúmsloft og sýna áhuga. Hann er nefnilega svo smitandi og gerir allt betra.