Ég nýti Sýnum karakter í þjálfun

Verkfærakistan
Spekingahornið

Ég nýti Sýnum karakter í þjálfun

Birtist fyrir
7/2/2017
dögum síðan.
Birtist fyrir
7/2/2017
dögum síðan.
0
mínútna lestur.

Ósk Kristinsdóttir

Þjálfari í 5.flokki kvk í knattspyrnu hjá HK

oskkristins@gmail.com

Ég nýti Sýnum karakter í þjálfun

Ég er þjálfari 5. flokks kvenna í knattspyrnu hjá HK og hef þjálfað yngri flokka hjá félaginu frá árinu 2003, í fyrstu sem aðstoðarþjálfari og síðar sem aðalþjálfari. Ég hef farið úr því að vera með átta stelpur á æfingum í litlum íþróttasal í það að vera með 40-50 stelpur á æfingu á hálfum velli í Kórnum í Kópavogi.

Við þessa breytingu hefur tengingin við iðkendur breyst. Ég leit á verkefnið Sýnum karakter sem kjörið tækifæri til þess að kynnast iðkendum mínum betur og aðstoða stelpurnar við að átta sig á stöðu sinni innan félagsins. Þær höfðu margar hverjar ekki hugmynd um hvað það er að vera félagsmaður, góður liðsfélagi eða leiðtogi. Fyrirmynd var hugtak sem þær þekktu en áttuðu sig ekki á að þær sjálfar væru fyrirmyndir, til dæmis í augum yngri iðkenda.

HK væri ekkert án iðkenda 

Það fyrsta sem ég fór að vinna með eftir fund með þjálfurum innan HK, þar sem við kynntum okkur Sýnum karakter, var að efla liðsandann og gera þær meðvitaðri um að þær væru hluti af HK, HK væri ekkert án iðkenda og að þær skiptu máli fyrir félagið. Við fórum í ratleik í Kórnum þar sem þær leystu ýmsar þrautir í sameiningu (liðsandinn) og svöruðu spurningum um félagið (félagsmaðurinn). Svörin fundu þær á víð og dreif um húsið á upplýsingaspjöldum.

Ósk þjálfari hjá HK

Við flokkaskipti að hausti þarf að passa upp á að yngri og eldri árgangar nái vel saman. Ákveðið óöryggi birtist hjá báðum hópum á þessum tíma og því tel ég tilvalið að nota ratleik eða eitthvað svipað til þess að fá þær til að kynnast og læra inn á hverja aðra. Á meðan á ratleiknum stóð fylgdist ég með stelpunum vinna saman í hópi. Markmiðið var að hluta til að sjá hvaða stelpur sýndu leiðtogafærni og hvernig stelpurnar unnu saman sem hópur. Þessar upplýsingar nýtti ég svo á æfingum, hvatti þær áfram sem ég taldi að þyrftu meiri hvatningu en aðrar og styrkti leiðtogana í hópnum í að nota hæfni sína til góðs.

leiðtogi, fyrirmynd, liðsfélagi og félagsmaður

Annað sem ég gerði með stelpunum í anda verkefnisins Sýnum Karakter var að boða stelpurnar í Kórinn utan æfingatíma. Tilgangurinn var að læra betur inn á þessi hugtök - leiðtogi, fyrirmynd, liðsfélagi og félagsmaður. Nýtt hugtak bættist líka við; markmið. Við byrjuðum á því að fylgjast með meistaraflokki HK/Víkings á æfingu. Tilgangurinn með því að hafa þetta á þessum tíma var að þær myndu tengjast betur meistaraflokknum og sjá að þarna væri eitthvað sem hægt væri að stefna að, að spila með meistaraflokki félagsins.

Telur þú þig vera góðan liðsfélaga?

Það næsta sem ég gerði var að skipta iðkendunum niður í litla hópa og fengu þær verkefnablað sem þær áttu að leysa í sameiningu. Þar voru spurningar á borð við: Hvað er liðsfélagi? Hvað er leiðtogi? Hvað er að vera fyrirmynd?

Tilgangurinn með að láta þær leysa þetta í litlum hópum en ekki hver og ein var lærdómurinn sem felst í samræðunum. Stelpurnar skiptust á skoðunum og skrifuðu niður sameiginlegt svar. Þær sem höfðu ekki hugmynd um hvað spurt var um lærðu það af öðrum. Við renndum yfir svörin í sameiningu og ég leiðrétti ef þörf var á. Þegar því var lokið fengu stelpurnar annað verkefnablað sem var einstaklingsverkefni. Á því voru spurningar eins og: Telur þú þig vera góðan liðsfélaga? Telur þú þig vera góðan félagsmann? Ert þú leiðtogi?

Stelpurnar urðu að rökstyðja svar sitt. Einnig var spurt um fyrirmyndir og svo áttu þær að setja sér markmið, markmiðin máttu vera langtíma- eða skammtímamarkmið og fór ég lauslega yfir markmiðasetningu með þeim.

Í lokin fylgdumst við svo með spili á æfingunni hjá HK/Víkingi með það að markmiði að finna leiðtoga á vellinum.

Ferlið gekk vonum framar og voru margar gagnlegar upplýsingar sem fram komu í svörum stelpnanna. Svör sem ég get nýtt mér til þess að styrkja stelpurnar „mínar“ sem einstaklinga og sem hluta af hópi.

Svipað efni

SJÁ ALLA FLOKKA