Ég skal vera alveg heiðarlegur að mér finnst oft erfitt að standa mig í því hlutverki að vera góður faðir þriggja ungra stúlkna. Það var enginn sem sagði mér hvað To do listinn væri langur áður en ég varð faðir.
Nú eru tvær af dömunum mínum komnar vel af stað í íþróttum (11 og 12 ára gamlar). Þegar þær voru að byrja um 6 ára, þá hugsaði ég með mér að nú væru þær komnar á heimavöllinn minn og ég gæti lagt eitthvað afmörkum sem pabbi þeirra! Lærður íþróttafræðingur, starfað sem íþróttakennari, þjálfari og í starfi hjá ÍSÍ í þróunar- og fræðslumálum.
ég stóð sjálfan mig að því að kalla leiðbeiningar um hvað hún ætti að vera að gera
Ég bauð mig auðvitað fram í foreldraráð og fararstjórn þegar þurfti. Mætti á æfingar og fylgdist með, gaf ungum þjálfurum þeirra ráð um hvað þær/þeir gætu gert öðruvísi og mögulega betur. Þegar kom að mótum og leikjum þá átti ég alltaf til viskukorn handa systrunum um hvað væri hægt að gera til að bæta sig. Þekkti allar stöður á vellinum, leikmaður, þjálfari, dómari, félagsmaður, áhorfandi. Ég gat haft skoðun á öllum þessum hlutverkum og þóttist vita þetta allt.
Þar til á einu móti hjá eldri dóttur minni að ég stóð sjálfan mig að því að kalla leiðbeiningar um hvað hún ætti að vera að gera. Það var nú ekki í fyrsta skiptið, né það síðasta. En líkt og svo margir aðrir foreldrar á hliðarlínunni, þá hvarf ég með stelpunum inn í leikinn. Þær voru samt bara 10 ára! Þegar leiknum lauk áttaði ég mig á því að ég var ekki þarna sem pabbi lengur, heldur keppnismaður!
Að móti loknu áttum við langa heimferð fyrir höndum. Á leiðinni gafst mér tækifæri til að taka stöðuna á sjálfum mér og átta mig á hvert hlutverk mitt ætti að vera. Ég lagði af stað í þessa vegferð með dætrum mínum með það að markmiði að vera ástríkt foreldri og stuðningsmaður þeirra númer eitt. Eftir því sem leið á heimferðina þá rann það upp fyrir mér að ég hafði öðlast mikla reynslu sem íþróttamaður, íþróttakennari/þjálfari og nú sem starfsmaður í íþróttahreyfingunni, en var í rauninni rétt að byrja sem foreldri. Í öllum hinum hlutverkunum hafði ég þjálfara, kennara/leiðbeinanda eða fræðilegt efni til að styðjast við. Þrátt fyrir að búa yfir allri þessarri reynslu þá hafði ég í raun lítið lesið mig til um foreldrahlutverkið, hvað þá að vera foreldri barns í íþróttum.
Íþróttir eru einn besti vettvangur fyrir börn til þess að læra að taka áhættur
Það var því mitt fyrsta verk þegar ég mætti í vinnuna daginn eftir að kynna mér hvað íþróttavísindin hefðu að segja um hlutverk foreldra í uppeldi barna í íþróttum. Í eins stuttu máli og hægt er. Þá kom svarið mér í raun ekki á óvart.
Leyfa barninu að gera mistök
Eitt af því sem ég rakst á í þessari leit minni var þessi ágæti fyrirlestur John O´Sullivan um stöðu mála barna- og unglingaíþróttir í Ameríku.
Íþróttir eru einn besti vettvangur fyrir börn til þess að læra að taka áhættur og fá að gera mistök, því innan leiksins verða mistökin hvorki varanleg né lífshættuleg. Stelpurnar mínar vilja ekki og þurfa ekki á mér að halda til þess að bjarga þeim ef eitthvað klikkar. Það er ekki mitt að bæta á þær auka álagi/stressi með því að koma með ábendingar eða leiðbeiningar. Nóg á stressið og samfélagslegi þrýstingurinn eftir að verða þegar þær eldast. Íþróttaþátttaka þeirra á að vera á þeirra forsendum.
Ég áttaði mig á því að þetta er eins og þegar að þær lærðu að hjóla. Þær byrjuðu á þríhjóli, lítil áhætta, nálægt jörðinni og þær fóru hægt yfir. Næsta stig var að fara á hjól með hjálpardekkjum. Þetta var aðeins erfiðara fyrir mig, því ég vildi ekki að þær meiddu sig komnar hærra upp frá jörðinni og farnar að fara hraðar yfir. Að lokum var hjálpardekkjunum sleppt og þá var bara tvennt sem ég þurfti að gera; Veita þeim smá stuðning þar til þær fundu jafnvægið og sleppa takinu.
„Ég elska að sjá þig spila“
Hlutverk mitt sem foreldri er einmitt að sleppa takinu á barninu í handleiðslu þjálfarans og umgjörð leiksins. Finna að ég treysti viðkomandi og því umhverfi sem barnið er í. Með þeim hætti fær barnið að taka ábyrgð á sínum mistökum en umfram allt að njóta þess að taka framförum á eigin verðleikum. Árangurinn mælist ekki í sigrum, heldur framförum og ánægju barnsins. Íþróttir eiga að vera sjálfsnám barnsins,
Hugmyndir um hvað við getum sagt við börnin okkar þegar þau keppa
Hér eru þrjú einföld ráð byggð á sálfræðirannsóknum sem við getum sagt við börnin okkar:
Sex einföld orð...
Að lokum langar mig til þess að vitna í niðurstöður rannsóknar sem var framkvæmd á íþróttafólki í háskóla og stóð yfir í nokkra áratugi. Þar var íþróttafólk spurt hvað það var sem foreldrar þeirra sögðu sem veitti þeim mesta ánægju og hvatningu. Niðurstaða rannsakenda rúmaðist í einni stuttri setningu; „Ég elska að sjá þig spila“. Það var allt og sumt. Einungis sex orð. Skilaboðin eru ekki flóknar en þetta.
Þegar ég las þetta á sínum tíma þá hugsaði ég með mér að prófa þetta við fyrsta tækifæri á stelpunum mínum. Stuttu seinna spilaði önnur dóttirin á tónfundi, einleik á þverflautuna sína. Eftir tónleikana sagði ég við hana; „Ég elska að hlusta á þig spila“ og gaf henni stórt knús. Ekkert meira. Ég sá hvar bros færðist yfir andlitið, hún rétti úr sér og ég sá hvað hún fylltist af stolti yfir eigin frammistöðu. Það var á þessari stundu sem mér fannst ég standa mig sem pabbi.