Sem þjálfari, til marga ára, hjá ungum krökkum hef ég fundið hvað það er mikilvægt að ég sem þjálfari setji fram mjög skýran ramma um hvað ég ætlast til af iðkendum á æfingum hjá mér. Þetta á við alla krakka þó sérstaklega þá sem eru með ADHD. Ég reyni alltaf eftir fremsta megni að segja hvað ég vil að sé gert, án þess að telja upp hvað það er sem á ekki að gera. Það getur oft verið snúið að segja krökkum til í sundlauginni, bæði með hegðun og tækni án þess að nota orð eins og ekki eða nei. Þegar það tekst þá verður allt andrúmsloftið miklu jákvæðara en þegar sífellt er verið að banna hluti og einblína á það neikvæða. Sumum krökkunum finnst þetta skrítið í byrjun, sérstaklega þeim sem eru vön að fá skammirnar og nei-in sín. Eitt sinn á áttu allir að synda eina ferð skriðsund en ein stúlkan spurði í sífellu hvort hún mætti synda bringusund og ég svaraði jafn harðan á móti með brosi að nú ættu allir að synda skriðsund. Að lokum dreif hún sig af stað án þess að fá nei-ið sitt. Ég hef fundið að með því að leyfa krökkunum að vera frjáls innan ákveðins ramma og ekki sífellt að vera að stjórna þeim með boðum og bönnum næ ég að virkja þau mun betur. Áhugi þeirra eykst, þau taka meiri ábyrgð á því sem er að gerast, verða öruggari með sig og sjálfstraustið vex.