Mér er ótrúlega minnistætt hversu erfitt mér reyndist að byrja að æfa fótbolta með liði. Ég var alltaf í fótbolta með krökkunum í hverfinu en ég þorði ekki á æfingar. Ég var alltaf á skíðum í Bláfjöllum, nánast hvern dag sem var opið, tók rútuna oft ein þangað og mig dauðlangaði að æfa skíði. Horfði oft á óteljandi æfingar með öfund en þorði aldrei að tala við neinn og það var enginn í umhverfi mínu sem hjálpaði mér að taka skrefið.
Ég æfði aldrei skíði af því að ég þorði því aldrei
Ég æfði aldrei skíði af því að ég þorði því aldrei.
Þeir sem þekkja mig í dag trúa þessu ekki því nú er ég allt annar karakter.
Þegar ég var 13 ára þorði ég loksins að fara á fyrstu fótboltaæfinguna hjá Val. Þjálfarinn sem þjálfaði liðið var kona með kennaramenntun, hún sá alla sem komu á æfingar og ég minnist þess enn hversu miklu máli það skipti að hún talaði við mig og ávarpaði mig oft með nafni á fyrstu æfingunni. Ég fann fljótlega fyrir öruggu umhverfi að Hlíðarenda þar sem húsverðirnir voru mér allt. Ég reifst við þau, spjallaði oft við þau langt fram á kvöld og oft svo lengi að þau fengu að henda mér útúr húsinu við lokun. Ég er ekki í nokkrum vafa um að Valsumhverfið og sá íþróttakúltur sem var til staðar þegar ég steig mín fyrstu spor mótuðu mig að mörgu leyti sem þjálfara.
Alltaf þegar ég sé barn horfa á íþróttaæfingu þá reyni ég að tala við það
Ég ákvað fljótlega á mínum þjálfaraferli að reyna að taka á móti nýjum iðkendum með því að segja nöfnin þeirra oft, brosa mikið og skapa umhverfi sem hægt væri að kalla sína „aðra fjölskyldu“. Alltaf þegar ég sé barn horfa á íþróttaæfingu þá reyni ég að tala við það og geri mitt besta til þess að hjálpa barninu að taka sín fyrstu skref inn á æfingu ef það þorir ekki eða „þykist ekki hafa áhuga“.
Snemma á þjálfaraferlinum byrjaði ég að láta alla mína iðkendur vera með möppur. Á fyrstu síðunni í möppunni þeirra stóð nafnið þeirra og að sjálfsögðu líka Valsmerkið.
Ég kenndi þeim að setja sér markmið
Í byrjun var ekki svo mikið í henni en markmiðið var að allir myndu safna mismunandi efni í möppuna sína. Ég kenndi þeim að setja sér markmið bæði sem einstaklingum og sem liði og svo settu þær markmiðin í möppuna. Ég setti upp heimaæfingar með einföldum, metanlegum æfingum og þær skráðu hvenær þær gerðu æfingarnar og hvernig það gekk. Inn á milli fengu þær einfalt fræðsluefni sem ég prentaði út og þær settu í möppuna. Ég skrifaði um félagið og gildi félagsins og gildi hópsins og hvernig maður hegðar sér í hópnum. Mappan var alltaf með. Stelpurnar komu með hana á æfingar og í keppnisferðir alveg eins og fótboltaskóna og ég veit fyrir víst að þetta hjálpaði nýjum leikmönnum að finna fyrir öryggi, að finnast þær mikilvægar frá byrjun og svo að geta fylgst með eigin framförum.
Margir leikmenn mínir frá þessum tíma og foreldrar þeirra segja mér sögur enn í dag frá því hversu mikilvægar möppurnar voru til að auka sjálfstraust og efla þroska þeirra. Margar eiga möppurnar enn og glugga í gildin sem hafa mótað þær að vissu leyti inn í lífið.
Það er hægt að gera mikið fyrir einstakling með því að setja nafn þess og félagsmerkið saman í fókus.